Benedikt Gunnarsson

Smellið á myndirnar til að fá nánari umfjöllun eftir tímabilum:

Listamannaferill Benedikts Gunnarssonar

Eftir Valgerði Benediktsdóttur

Skrifað 1984

Hér á eftir er ætlunin að rekja í megindráttum starfsferil Benedikts Gunnarssonar listmálara. Benedikt tók virkan þátt í þeirri formbyltingarstefnu í myndlist sem ríkjandi var hér á landi og víða um heim á árunum 1950 – 1965, og nefndist geometrisk abstraktion. Kúbisminn og fútúrisminn ítalski ásamt súrrealismanum hafa haft ómæld áhrif á myndlist 20. aldar. Segja má að fjölmargt í hugmyndafræði og formgerð fyrrgreindra listastefna hafi mátað og einkennt svipmót 20. aldarinnar öðrum listastefnum fremur.

Myndstíll Benedikts Gunnarssonar í dag er vaxinn m.a. úr þessum jarðvegi. Í abstrakt myndlist er ásýnd hlutveruleikans ekki gerð að aðalatriði. Abstraktmálari reynir fyrst og fremst að gæða verk sín lífi með myndfræðilegum og rökfræðilegum skírskotunum. Kyrrstaða gegn hreyfingu - sveiflur forma með undirstrikun lita - hrynjandi - átök, litræn og formræn - þar eru þau meginvandamál sem abstraktmálari glímir við. Allir þessir þættir eiga sér samsvörun í náttúrunni en abstraktmálarinn einangrar þá og hefur í æðra veldi myndmáls með sköpunargáfu sinni. Þannig er abstraktmálarinn túlkandi náttúruafla - hann er sjálfur hluti náttúrunnar - verk hans eru ný túlkun á hlutbundnum (objective) og óhlutbundnum (subjective) heimi.

Í lok heimstyrjaldarinnar fyrri tók að bera á nýrri stefnu í myndlist, er hafnaði með öllu fyrri hugmyndum manna um formgerð í myndverkum. Abstraktið ruddi sér rúms á léreftinu og neitaði öllum tengslum við hvers konar raunsæi og eftirlíkingar. Nefna má a.m.k. 15 myndlistarmenn af ýmsum þjóðernum sem voru óumdeilanlega les premiers maîtres de l'art abstraits (1) - fyrstu meistarar abstrakt myndgerðar. Verk þessara manna sýna það ljóslega að abstrakt myndgerð var ekki í upphafi bundin ákveðnum löndum heldur þróaðist sem alþjóðlegt fyrirbrigði, fjölbreytt og ferskt. Allir þessir 15 listamenn höfðu náð persónulegum tökum á óhlutbundinni abstrakt myndgerð á árunum 1910 – 1918 (2).

  1. Wassily Kandinsky (1866 - 1944) Rússn. málari

  2. Francois Kupka (1871 - 1957) Tékknesk. málari

  3. Francis Picabia (1878 - 1953) Fransk/spænskur,

  4. Robert Delaunay (1855 - 1940) Fransk. málari

  5. Sonia Delaunay (1885) Rússneskur málari

  6. Kasimir Malevich (1878 - 1935) Rússn, málari

  7. Vladimir Tatliv (1885) Rússneskur málari

  8. Franz Marc (1880 - 1916) Þýskur málari

  9. August Macke (1887 - 1914) þýskur málari

  10. Alberto Magnelli (1888 - 1971) Ítalskur málari

  11. Jean Arp (1887-1966) Franskur myndhöggvari m.m.

  12. Sophie Taeuber-Arp (1889 - 1943)

  13. Théo Van Doesburg (1883) Holl. mál.,myndh., arkit.,ljóðsk.

  14. Piet Mondrian (1872 1944) Holl. málari

  15. Georges Vantongerloo (1886-1965) Belg. málari

Ástæða þykir til að fjalla hér sérstaklega um W. Kandinsky vegna ómældra áhrifa hans á Benedikt sem listamann. W. Kandinsky stundaði upphaflega lögfræði og hagfræði í Moskvu en ákvað síðar (1896) að verða málari. Fór hann til München og gerðist nemandi Frank Stuck. Kandinsky vann um tíma undir áhrifum frá impressionisma en fór svo út í fauvismann. Það var síðan árið 1910 sem hann hellti sér af alvöru út í abstrakt málverkið. 1922 var hann settur sem prófessor við Bauhaus listaskólann í Þýskalandi þar sem hann fékk tækifæri til að vinna með Paul Klee (1879 - 1940), Jawlensky (1866 - 1941) og Feininger (1871 - 1956). Bauhaus var lokað árið 1933 af nasistum sem stilltu mörgum myndum Kandinsky upp sem dómi um úrkynjaða list.

Mestu áhrifavaldar í abstrakt myndlist á Íslandi voru þeir Þorvaldur Skúlason (1906 - 1984) og Svavar Guðnason (1909). Það var þó Finnur Jónsson er fyrstur Íslendinga tók að mála abstrakt myndverk, eða um 1925, en ekki er talið að hann hafi að nokkru marki haft áhrif á þróun abstraktlistar á Íslandi. Í DV (14.12."83) skrifar Aðalsteinn Ingólfsson (3) um Finn og segir m.a.: „Hér er rétt að benda á að meðan ekki liggja fyrir rannsóknir á elstu málverkum Björns Björnssonar (föðurbróður Björns Th. innsk.) er tæpast hægt að fullyrða um brautryðjendastarf Finns. Strangt til tekið verður hvorugur þeirra, Björn eða Finnur, réttnefndur brautryðjandi því að sú afstrakt myndlist, sem fylgdi í kjölfar þeirra tuttugu og fimm árum seinna, á þeim ekkert að þakka.“

Fræg sýning var haldin í Reykjavík 1947; Septembersýningin svokallaða. Hlutur abstraktmálaranna á þeirri sýningu kom á miklu hugmyndafræðilegu róti á Íslandi. Menn deildu hart um listgildi abstraktmyndgerðar og listamennirnir urðu ekki feitir af sölu verka sinna. Sýningin var nokkurs konar tímamótasýning í íslenskri myndlist og hafði ómæld áhrif á gesti hennar (4).

Þeir sem áttu verk á sýningunni voru þau Gunnlaugur Scheving, Jóhannes Jóhannesson, Kjartan Guðjónsson, Kristján Davíðsson, Nína Tryggvadóttir, Sigurjón Ólafsson, Snorri Arinbjarnar, Tove Ólafsson, Valtýr Pétursson og Þorvaldur Skúlason. Sýning Svavars Guðnasonar í Listamannaskálanum tveimur árum fyrr vakti einnig óskipta athygli. Í bók Björns Th. Björnssonar, Íslensk myndlist á 19. og 20. öld, 2. bindi, bls. 297, segir höfundur að „þessi sýning Svavars hafi verið einhver mesti einstakur viðburður í íslenskri list um langt árabil...“

Í listum sem vísindum er sífelld þörf á endurmati vinnuaðferða og fræðilegra kenninga. Ekkert stendur í stað – lífið er framþróun. Eðlilegt má því teljast að listamenn þróist úr einu listformi í annað í leit sinni að persónulegu tjáningarformi. Listasagan fjallar að stórum hluta um málefni af þessu tagi. Í framhaldi umræðu um „geometriska abstraktion“ í íslenskri myndlist má nefna að um og eftir 1960 hurfu margir myndlistarmenn erlendis og nokkrir hérlendis (þ.á.m. Benedikt Gunnarsson, Eiríkur Smith og Sverrir Haraldsson) frá hinum harða „geometríska“ málunarmáta og reyndu fyrir sér með „ljóðrænni“, mýkri og átakameiri málunaraðferðum. Hvað Benedikt Gunnarsson snertir, má benda á sýningu hans 1961 í Listamannaskálanum og 1965 í Bogasal Þjóðminjasafnsins.

Benedikt Gunnarsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 14. júlí 1929. Strax í æsku kviknaði áhugi hans fyrir myndlist; ekki hvað síst vegna bræðra hans, Veturliða, Steinþórs Marinós og Elís sem allir lögðu stund á teiknun og málun. Benedikt stundaði listnám á árunum 1945-1954. Haustið 1945 fór Benedikt í Myndlista- og handíðaskóla Íslands (aðalkennarar Kjartan Guðjónsson og Kurt Zier) og eftir það stundaði hann listnám við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn (aðalkennari Krasten Iversen) og listaskóla R.P. Böyesens (aðalkennari R.P. Böyesen) í Ríkislistasafninu í Kaupmannahöfn til 1950. Að því loknu hélt hann til Frakklands þar sem hann nam við École Des Beaux-Arts og Academie de la Grand-Chaumiere; ennfremur í Madrid. Benedikt starfaði sem kennari við MHÍ frá 1959 – 1968 og við Kennaraháskóla Íslands frá 1965. Benedikt er nú lektor í myndlist við Kennaraháskóla Íslands.

Í námi sínu við Myndlista- og handíðaskóla Íslands vann Benedikt mikið undir leiðsögn hins mikilhæfa listamanns Kurt Zier (f.1907) er hingað flúði undan nasistum 1939. Zier var, að sögn Benedikts, afbragðskennari – bæði í almennri teiknun, málun, myndskipan og listasögu. Á árunum 1961 – 1968 var Benedikt samkennari og aðstoðarkennari Ziers við MHÍ.

Síðasta námsárið i MHÍ var áhrifa frá Picasso farið að gæta í verkum Benedikts. Í námi sínu í Frakklandi varð hann fyrir áhrifum af franskri nútímalist. Kúbisminn og fútúrisminn ítalski höfðu einnig áhrif á hann sem leitandi nemanda og myndlistarmann. Í formgerð myndverka kúbistanna og fútúristanna var byltingarkenndur tónn sem höfðaði afar sterkt til Benedikts og fóru áhrif fyrrgreindra listastefna að marka myndverk hans að loknu hefðbundnu myndlistarnámi. Þó reyndi hann eftir bestu getu að halda sínu persónulega svipmóti.

Vorið 1951, þegar Benedikt kom heim frá París, efndu þeir Eiríkur Smith til sýningar i Listvinasalnum. Ekki varð hún þeim til fjár; verk þeirra orkuðu ný og framandi á almenning en umsagnir voru engu að síður vinsamlegar. Í grein í Þjóðviljanum eftir Hörð Agústsson (6) var þeim spáð frama og sagði hann ennfremur að verk þeirra væru unnin undir áhrifum frá Kandinsky, Schneider og Hartung. Fyrstu einkasýningu sína hélt Benedikt í París haustið 1953 og voru flestar myndirnar „non-fígúratívar“ eða abstrakt. Í myndlistargagnrýni sem birtist í L'amateur d'art (5) segir: „Hinn íslenski listamaður Benedikt sýnir okkur hreinabströkt málverk í björtum litastiga, afar geðþökk. List þessi talar máli lífsgleðinnar í hinu fullkomna, bjarta jafnvægi milli hins efnislega og hins andlega.“ (23.10."53) Ári síðar hélt Benedikt fyrstu einkasýningu sína hérlendis og var hún í Listamannaskálanum. Myndirnar voru allar óhlutkenndar; Benedikt hafnaði fyrirmyndinni en reyndi þess í stað að lýsa eðli hennar í litum og formum. Í myndlistargagnrýni um sýninguna segir Ragnar Smára (7) (Helgafell): „Hin stórkostlega sýning hans í Listamannaskálanum minnir á risavaxið litamonument [...] Sannarl ega stórskemmtileg sýning, beinlínis yfirþyrmandi og heillandi í senn, augsýnilega allt nýtt af nálinni [...] Ég óska ungu kynslóðinni til hamingju með þetta dauðhreinsaða silfurtæra andrúmsloft, þessi djörfu forkláruðu form og þessa ómenguðu litatóna; svo dásamlega gerilsneydda allri tilfinningasemi.“

Á árunum 1954 – 1961 hélt Benedikt enga einkasýningu, en málaði af kappi. Þróaðist hann smám saman frá abstrakt geometríunni. Árið 196 hélt Benedikt stóra einkasýningu í Listamannaskálanum í Reykjavík. Að áliti Benedikts markaði þessi sýning töluverð þáttaskil í myndgerð hans. Þrátt fyrir óhlutbundinn abstrakt myndstíl höfðu öll myndfræðileg efnistök og hugmyndaúrvinnsla gjörbreyst frá síðustu sýningu hans 1954. Myndirnar voru flestar stórar i sniðum (120-130-140 cm) og einkenndust annars vegar af þéttum sveiflukenndum hreyfingum forma („dynamik“) og hins vegar af rólegum kyrrstæðum formbyggingum. Þrátt fyrir abstrakt myndmál voru ýmis náttúrufyrirbrigði kveikja myndverkanna. Í blaðaviðtali segir Benedikt m.a. „...hreyfingin hefur þróast, láréttar og lóðréttar línur og fletir raskast af skálínum og boglínum uns þær komast á ferð. Mismunurinn er kannski aðeins fólginn í áhrifum hreyfingarinnar á sömu eindir. En um leið og þessi breyting hefur átt sér stað verður myndin lýrískari og einhvern veginn organískari.“ (8) Í myndlistargagnrýni í Morgunblaðinu (14. maí "61) segir Valtýr Pétursson: „Það er mjög eftirtektarvert, hve Benedikt virðist vera i essinu sinu, er hann byggir á áhrifum frá hamraveggjum og öðru úr landslaginu, þar verður liturinn meira lifandi en í sumum öðrum verkum hans, og hann nær fastari tökum á viðfangsefninu.“ (9)

Á sýningu Benedikts í Bogasalnum 1965 kvað við nýjan tón í myndgerðinni ; nokkurs konar abstraktexpressionismi. Myndirnar voru áfram óhlutbundnar en efnismeðferð breytt, liturinn orðinn efnismeiri og litablöndur öðruvísi. Á sýningunni voru einnig nokkrar „fotogram“ myndir sem urðu til við leik að framköllunartækjum og ljósmyndapappír. Í stuttu spjalli við eitt dagblaðanna segir Benedikt: „Náttúran er myndunum baksvið, undirtónn, sem ég reyni síðan að þróa upp í abstraktsjónir sem tilheyra mér einum og engum öðrum.“ (10) Í myndlistargagnrýni í Morgunblaðinu (19.03. "65) segir Valtýr Pétursson (11) m.a.: „Þessi sýning Benedikts Gunnarssonar er skemmtileg, og ekki sízt fyrir þá, sem fylgst hafa med fyrri sýningum hans. Svo auðséð er framförin hjá listamanninum. Hann er sístarfandi og hefur þróazt bæði í stíl og vinnubrögðum. Honum hefur nú tekizt að ná miklu betri árangri í litameðferð sérstaklega, en áður fyrr. Nú eru myndir hans samrýmdari litnum og ekki eins harðar tónum og vildi stundum koma fyrir í fyrri verkum Benedikts.“

Árið 1973 hélt Benedikt stóra einkasýningu í Norræna húsinu. Mikil ljóðræna var í myndum hans og margar þeirra „...hálfgerður súrrealismi, litaleikur í landinu, vélum og því sem fólk hefur fyrir augunum hversdags.“ (12) (Viðtal við BG í Morgunbl. 3.04."73) Á sýningunni í Norræna húsinu sýndi Benedikt í fyrsta skipti opinberlega nokkrar mannamyndir (portrai t). Í kjölfarið fylgdi tímabil mannanyndagerðar af ýmsu tagi. Maðurinn hóf innreið sína að nokkru leyti í myndstíl hans, sbr.myndheitin „Maður og vél,“ „Geimfari“ o.fl. Mannamyndagerðin þróaðist og leiddi af sér einkasýningu sem haldin var á Hvammstanga á vorvöku Húnvetninga 1977. Sú sýning hafði þá sérstöðu á myndlistarferli Benedikts að á henni voru eingöngu mannamyndir af Húnvetningum, lífs og liðnum.

Samhliða olíumyndamálun hefur Benedikt unnið af og til í önnur efni eins og t.d. pastel, akrýl, steingler og steinsteypu. Á síðari árum hefur hann lagt nokkra rækt við myndgerð trúarlegs eðlis. Má þar nefna steinda glugga í kirkjum (Keflavíkurkirkju og Þykkvabæjarkirkju), svo og olíu og pastelmyndir. Helstu viðfangsefnin síðastliðin tíu ár hafa verið landið, ljósið, mannvirki, eldsumbrot, sköpun lands, haf og eldur. Gosið í Heimaey 1973 varð Benedikt drjúgt myndefni og hafði að eigin sögn gífurleg áhrif á viðfangsefnaval hans næstu árin. Hefur hann gert ótal myndir, stórar og smáar, í öllum mögulegum efnum, í tilraunum sínum til að túlka eldgos í byggð, smæð og varnarleysi mannsins gagnvart máttarvöldunum.

Benedikt er nú 55 ára og enn eru nýir hlutir að sjá dagsins ljós í vinnustofu hans í Kastalagerðinu. Þreytist hann vonandi seint í leit sinni að nýjum leiðum til túlkunar á gömlum sem nýjum myndefnum.

Hamingja hvers listamanns felst í möguleikanum á að geta fært þrá sína, gleði og sorg í listrænan búning. Myndverk listamanns hlýtur að vera tjáning hans og tungumál sem áhorfandanum er fyrst og fremst ætlað að njóta fremur en skilja.

Nýjungar í listum hafa oft átt erfitt uppdráttar vegna álits almennings sem ekki hefur kunnað að meta þær og hefur heimtað að fá aftur það sem hann hefur vanist.

Benedikt og margir aðrir málarar hafa málað myndir sem almenningur hefur fussað yfir en haldið áfram að mála þrátt fyrir það. Þeir eru ekki að mála varning til að þóknast almenningi; þeir eru að skapa verk sem eru tjáning hugsana þeirra og tilfinninga.

List getur enginn skilgreint; hvort hún er fögur eða ljót geta menn aldrei orðið sammála um. Spurningin er oft hjá málurunum: Eru þeir að mála til að lifa eða lifa til að mála? Sumir geta lifað af listinni eingöngu en það er erfitt hér á Íslandi. Þrátt fyrir starfslaun og listamannalaun sem ríkið veitir árlega verða flestallir listamenn að stunda önnur störf samhliða sinni listgrein. Aðspurður segir Benedikt að aðsókn og sala á sýningum hans sl. 12 ár hafi verið mjög góð. Aðsókn almennings á listsýningar hérlendis hefur stóraukist með nýjum og glæsilegum sýningarsölum, ásamt aukinni fræðslu um listir í skólum landsins og fjölmiðlum. Gróska er mikil í myndlist á Íslandi og segir Benedikt það góðs viti. Listastefnur fæðast og hverfa en tíminn einn sker úr um það hvað lifir af þeim hugverkum sem borin eru fram undir merki listarinnar Menningarleg reisn hvers þjóðfélags ræðst ætíð meðal annars af stöðu listarinnar innan þess.

Án listar – engin menning.


Heimildir

[1] „Les premiers maitres de l‘art abstrait“. Seupher, Michel: L‘art abstrait – ses origines – ses premiers maîtres, Maeght, Paris, 1950 bls. 183.

[2] „Les premiers maitres de l‘art abstrait“. Seupher, Michel: L‘art abstrait – ses origines – ses premiers maîtres, Maeght, Paris, 1950 bls. 185.

[3] DV, 14.12.1983 (grein eftir Aðalstein Ingólfsson)

[4] Sýningarskrá frá Septembersýningunni 1947.

[5] L‘amateur d‘art, 23.10.1953 (myndlistargagnrýni).

[6] Þjóðviljinn 1951, dagsetning ókunn (eftir Hörð Ágústsson)

[7] Helgafell 1954, dagsetning ókunn (myndlistargagnrýni eftir Ragnar í Smára)

[8] Blaðaviðtal frá 1961, dagsetning og dagblað ókunn.

[9] Morgunblaðið, 14.05.1961 (myndlistargagnrýni eftir Valtý Pétursson)

[10] Grein úr dagblaði 1965 (nafn og dagsetning ókunn)

[11] Morgunblaðið, 19.03.1965 (myndlistargagnrýni eftir Valtý Pétursson)

[12] Morgunblaðið, 03.04.1973

[13] Ritdómar úr dagblöðunum, 21.06.1986 og 21.02.1971 (nöfn dagblaða ókunn)

[14] Johansen, R. Broby: Heimslist – Heimalist, Mál og Menning 1977.