Fótógrömm / Gríngrafík

Fótógrömm (e. photogram) er tækni sem felur í sér að leggja hluti á ljósnæman flöt, sem síðan er lýstur og framkallaður. Benedikt Gunnarsson gerði tilraunir með fótógrömm á 7. áratug 20. aldar og var með nokkur verk á sýningu sinni í Bogasal Þjóðminjasafnsins árið 1965. Benedikt kallaði aðferðina gríngrafík:

Gríngrafík til sýnis í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1965

Fotogram kalla menn þetta — myndir sem verða til við leik að framköllunartækjum og ljósmyndapappír. En ég vil heldur kalla þetta gríngrafík og ég hef nefnt myndirnar eftir því. Þetta gæti til dæmis verið Dans póstmeistarans. Og þessi heitir víst Draumur bréfberans.

17 gríngrafíkmyndir Benedikts voru gefnar til Ljósmyndasafns Íslands í mars 2019 og hafði safnið um það að segja:

Ljósmyndasafni Íslands hefur borist vegleg gjöf á 17 fótógrömmum eftir Benedikt Gunnarsson. Árið 1965 hélt listmálarinn Benedikt Gunnarsson (1929–2018) sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnins og sýndi þar um 30 olíumálverk og nokkrar grafískar myndir.

Grafísku myndirnar voru það sem kallað hefur verið fótógrömm en það eru ljósmyndir sem eru búnar til með því að leggja hluti á ljósnæman flöt, oftast ljósmyndapappír, sem síðan er lýstur og framkallaður. Fótógrömmin eftir Benedikt eru abstraktmyndir og kallast á við myndhugsunina í módernískri myndlist og ljósmyndun. Aðferðin er ekki síst áhugaverð í sögulegu samhengi módernismans og í verkum manna á borð við Man Ray og Lázló Moholy-Nagy, þó hana megi einnig rekja til árdaga ljósmyndarinnar. Það eru örfáir sem hafa notað þessa aðferð hérlendis fyrir utan Benedikt, þeirra á meðal Dieter Roth sem gerði slík verk árið 1960. Ljósmyndasafn Íslands í Þjóðminjasafni vill þakka erfingjum Benedikts þessa merku gjöf.

Sjá upprunalega færslu